Stjórnar liði í 700. leiknum

Steve Bruce lætur til sín heyra á hliðarlínunni.
Steve Bruce lætur til sín heyra á hliðarlínunni. AFP

Steve Bruce, sem lengi lék í vörn Manchester United, nær stórum áfanga á gamla heimavellinum, Old Trafford, á morgun þegar hann kemur þangað í heimsókn með lið sitt, Hull City, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Þetta verður 700. leikurinn hjá Bruce sem knattspyrnustjóri en hann hefur verið að samfleytt frá árinu 1998 þegar hann gerðist spilandi stjóri hjá Sheffield United. Síðan hefur hann stýrt liðum Huddersfield, Wigan, Crystal Palace, Birmingham, Sunderland og svo Hull frá árinu 2012.

Bruce, sem verður 54 ára á gamlársdag, lék samtals 737 deildaleiki sjálfur á sínum tíma og tæpa þúsund leiki alls með Manchester United, Norwich, Birmingham, Sheffield United og Gillingham, á 20 ára ferli sem leikmaður.

„Þetta gerðist allt svo hratt. Ég var að huga að því að gerast þjálfari í yngri flokkum eða knattspyrnuskólum, þegar ég fékk símtal og var spurður um hvort ég vildi verða spilandi stjóri Sheffield United. Ég verð alltaf þakklátur fyrir það símtal. Ég held að 998 leikir sem leikmaður og 700 sem knattspyrnustjóri teljist vera ansi mörg laugardagssíðdegi!" sagði Bruce við BBC í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert