Mexíkóinn í mark Liverpool?

Guillermo Ochoa ver eitt fjölmargra skota í leik Mexíkó og …
Guillermo Ochoa ver eitt fjölmargra skota í leik Mexíkó og Brasilíu í sumar. AFP

Breskir fjölmiðlar fullyrða að Liverpool sé búið að ganga frá kaupum á Guillermo Ochoa, landsliðsmarkverði Mexíkó í knattspyrnu, frá Málaga á Spáni. Forráðamenn spænska félagsins neita hinsvegar að þeir séu í sambandi við Liverpool.

Umræða hefur verið í gangi hver eigi að koma í stað Simons Mignolets í marki Liverpool en Belginn hefur verið settur út í kuldann eftir köflótta frammistöðu á þessu keppnistímabili.

Ochoa vakti mikla athygli fyrir frammistöðu sína með Mexíkóum á HM í sumar en hefur hinsvegar mátt sætta sig við bekkjarsetu hjá Málaga þar sem Carlos Kameni hefur farið á kostum í marki spænska liðsins.

Ochoa, sem er 29 ára gamall, kom til Málaga frá Ajaccio í Frakklandi í sumar eftir þriggja ára dvöl þar en hefur aðeins spilað einn mótsleik, í spænska bikarnum. Hann á að baki 66 landsleiki fyrir Mexíkó.

Mario Husillos, íþróttastjóri Málaga, sagði í útvarpsviðtali við Cadena COPE á Spáni í dag að hann kannaðist ekkert við málið og ekkert hefði veirð spurt um markvörðinn. Bresku fjölmiðlarnir  fullyrða hinsvegar að Liverpool muni kaupa hann fyrir 3 milljónir punda á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert