Spila þar sem stjórinn stillir mér upp

Raheem Sterling leikur á Tommy Elphick varnarmann Bournemouth áður en …
Raheem Sterling leikur á Tommy Elphick varnarmann Bournemouth áður en hann skoraði þriðja markið í kvöld. AFP

Raheem Sterling, sem skoraði tvö marka Liverpool í sigrinum á Bournemouth, 3:1, í enska deildabikarnum í knattspyrnu í kvöld kveðst kunna ágætlega við sig í framlínu liðsins þó hann hafi yfirleitt ekki spilað þar.

Sterling skoraði fyrsta markið með laglegum skalla af stuttu færi, hans fyrsta skallamark fyrir Liverpool, og gerði svo þriðja markið eftir að hafa platað varnarmenn Bournemouth uppúr skónum með hraða sínum og snerpu.

„Ég kann vel við mig þarna en ég spila bara þar sem stjórinn stillir mér upp og reyni að gera mitt besta fyrir liðið. Ég legg alltaf 100 prósent í leikina og það var ekkert öðruvísi í kvöld þó ég væri fremsti maður. Það er langt síðan ég hef spilað þarna, ekki síðan ég var í unglingaliðinu, en er bara ánægður með að geta hjálpað liðinu," sagði Sterling við vef Liverpool eftir leikinn.

„Aðalmálið var að liðið skyldi vinna. Ég er ánægður með að hafa skorað en er þó fyrst og fremst ánægður þegar liðið sigrar. Síðustu vikur hafa verið erfiðar, en liðið stóð sig  vel í kvöld og verðskuldaði sigurinn. Á köflum spiluðum við flottan fótbolta og allir eiga heiður skilinn," sagði Sterling.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert