Desember er lykilmánuður

Leikmenn City fagna einu markanna gegn Crystal Palace.
Leikmenn City fagna einu markanna gegn Crystal Palace. AFP

Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, sagði eftir sigurinn á Crystal Palace í gær, 3:0, að desember væri lykilmánuður í baráttunni um enska meistaratitilinn.

„Maður vinnur ekki titilinn í desember, en sá sem ætlar að vera með í baráttunni á næstu mánuðum verður að vera við toppinn á þessum tíma. Nú höfum við unnið sex eða sjö leiki í röð og það gefur okkur mikið sjálfstraust. Það hefur sýnt sig að það er ekki bara eitt lið sem er líklegt til að vinna deildina," sagði Pellegrini við BBC.

City náði með sigrinum Chelsea að stigum. Lundúnaliðið hefur verið efst frá byrjun móts og getur aukið forskotið á ný í þrjú stig annað kvöld þegar það mætir Stoke á útivelli.

Pellegrini hafði engan hefðbundinn framherja í liði sínu í gær því Edin Dzeko, Sergio Agüero og Steven Jovetic eru allir frá vegna meiðsla.

„Það var gaman að vinna með liðinu alla vikuna og reyna að gera hlutina öðruvísi, án framherja. Palace er lið sem kann að verjast og það var því frábært að skora þrjú mörk. Við sköpuðum okkur færi með því að láta boltann ganga hratt. David Silva er toppleikmaður með mikla hæfileika. Okkar lið er ekki bara Sergio Agüero - við leggjum mjög hart að okkur allan tímann," sagði Pellegrini. Silva skoraði tvö markanna og Yaya Touré eitt.

Leikjaprógramm City um hátíðirnar er mjög hagstætt því liðið mæti WBA, Burnley og Sunderland í þremur næstu leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert