Við vorum ekki skapandi

Ashley Young og Matthew Lowton í leiknum á Villa Park.
Ashley Young og Matthew Lowton í leiknum á Villa Park. AFP

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, var afar óhress með að hans menn skyldu ekki nýta sér að vera manni fleiri gegn Aston Villa á Villa Park í gær en leikur liðanna í ensku úrvalsdeildinni endaði 1:1.

Þar með missti United af tækifæri til að halda í við toppliðin tvö en liðið er nú sjö stigum á eftir Manchester City og Chelsea.

„Ef maður ætlar að vera í tititbaráttu verða svona leikir að vinnast. Ég sá fyrri hálfleikinn hjá Manchester City gegn Crystal Palace. Þeir voru í basli en unnu 3:0 og það skiptir sköpum. Við töpuðum tveimur stigum. Við vorum betri aðilinn og það er svekkjandi að vinna ekki slíka leiki," sagði van Gaal við BBC.

„Við héldum boltanum vel í fyrri hálfleik en gerðum ekkert við hann. Menn verða að vera skapandi þegar þeir eru með boltann en það vorum við ekki," sagði Hollendingurinn.

Christian Benteke kom Villa yfir snemma leiks. Radamel Falcao jafnaði fyrir United eftir átta mínútur í seinni hálfleik. Gabriel Agbonlahor fékk rauða spjaldið fljótlega eftir það en United nýtti ekki liðsmuninn. Brottreksturinn var afar umdeildur en Agbonlahor og Ashley Young lentu þá saman í návígi og Lee Mason rak Agbonlahor umsvifalaust af velli.

„Young viðurkenndi að það hefði verið hann sem braut á Agbonlahor," sagði Paul Lambert, knattspyrnustjóri Villa, eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert