Stoltur af trausti frá Sir Alex

Louis van Gaal getur brosað að hafa stuðning goðsagnarinnar Sir …
Louis van Gaal getur brosað að hafa stuðning goðsagnarinnar Sir Alex Ferguson. AFP

Hollendingurinn Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, segir aukna pressu vera á sér að ná árangri með liðið til að endurgjalda Sir Alex Ferguson, fyrrum stjóra liðsins, það traust sem hann hefur sýnt sér.

Ferguson hefur staðið við bakið á van Gaal í viðtölum og sagt hann vera rétta manninn til að koma liðinu aftur í þær hæðir sem hann náði á þeim 27 árum sem hann hélt um taumana á Old Trafford. Eftir erfiða byrjun á tímabilinu er United nú komið upp í þriðja sæti deildarinnar og bjartsýnin aftur farin að ráða ríkjum í rauða hluta Manchester-borgar.

„Þetta er frábært. Þegar þú kemur til þessa félags vonastu auðvitað til að hann [Sir Alex Ferguson] muni styðja þig. Hann hefur sýnt mér mikið traust og þú þarft það sem knattspyrnustjóri þessa liðs. Ég er mjög ánægður með það,“ sagði van Gaal, sem segir það þó hafa sína galla líka ef svo má segja.

„Það að hann hafi trú á manni eykur auðvitað pressuna. En það þarf að hafa pressu til að ná hagstæðum úrslitum í erfiðum leikjum úrvalsdeildarinnar,“ sagði van Gaal, en lærisveinar hans eru taplausir í síðustu sjö leikjum og byrja jólatörnina gegn Newcastle á öðrum degi jóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert