Balotelli er klár í slaginn

Mario Balotelli.
Mario Balotelli. AFP

Ítalski sóknarmaðurinn Mario Balotelli er klár í slaginn með Liverpool þegar það sækir nýliða Burnley heim á Turf Moor í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á morgun, öðrum degi jóla.

Meiðsli og leikbann hafa þýtt að Balotelli hefur aðeins spilað einn leik með Liverpool síðan 8. nóvember.

„Balotelli er klár í slaginn,“ segir Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool á vef félagsins.

Balotelli hefur átt erfitt uppdráttar hjá Liverpool á tímabilinu en félagið keypti hann frá AC Milan í sumar og greiddi fyrir hann 16 milljónir punda. Balotelli hefur komið við sögu í 10 leikjum Liverpool í deildinni og hefur enn ekki tekist að skora. Það skildi þó ekki fara svo að hann nái að brjóta ísinn á Turf Moor á morgun?

Joe Allen, Glen Johnson og Jon Flanagan eru allir á meiðslalistanum hjá Liverpool og Fabio Borini tekur út leikbann en hann var rekinn af velli í leiknum gegn Arsenal um síðustu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert