Misjafn árangur á öðrum degi jóla

Man Utd hefur átt góðu gengi að fagna á öðrum …
Man Utd hefur átt góðu gengi að fagna á öðrum degi jóla. AFP

Sem fyrr er þétt spilað í ensku úrvalsdeildinni yfir jólahátíðina og á morgun, annan dag jóla, fer fram heil umferð í deildinni. Það er því ekki úr vegi að horfa til baka á árangur liðanna á þessum degi í gegnum tíðina.

Stuðningsmenn Manchester United bíða væntanlega viðureignarinnar við Newcastle á morgun með tilhlökkun, en United hefur aðeins einu sinni tapað leik á öðrum degi jóla síðan úrvalsdeildin var stofnuð árið 1992. Það var gegn Middlesbrough árið 2002. Arsenal kemur þar fast á hæla þeirra, hafa unnið 15 af 22 leikjum sínum þennan dag og einnig tapað einu sinni.

Þrjú af þeim tuttugu liðum sem eru í deildinni í ár hafa aldrei fagnað sigri á öðrum degi jóla, en það eru Burnley, Hull og Swansea. Þau hafa tapað öllum leikjum sínum þennan dag, en saga þeirra í deild þeirra bestu er þó ekki löng og hafa þau samtals spilað sjö leiki þann 26. desember.

Af þeim liðum sem hafa verið hve lengst í deildinni eru það hins vegar Everton og Aston Villa sem reka lestina. Villa hefur einungis unnið þrisvar á þessum 22 árum og Everton sex sinnum.

Hvað leikmenn varðar er gamli refurinn Robbie Fowler markahæstur á öðrum degi jóla, en hann skoraði á sínum tíma átta mörk á þessum degi fyrir Liverpool og Manchester City. Á hæla hans koma svo Thierry Henry og Robbie Keane sem hafa skorað sjö sinnum á öðrum degi jóla.

Leikir morgundagsins:

12.45 Chelsea – West Ham
15.00 Crystal Palace – Southampton
15.00 West Brom – Manchester City
15.00 Leicester – Tottenham
15.00 Swansea – Aston Villa
15.00 Sunderland – Hull
15.00 Burnley – Liverpool
15.00 Manchester United – Newcastle
15.00 Everton – Stoke
17.30 Arsenal – QPR  

Robbie Fowler er markahæstur á öðrum degi jóla.
Robbie Fowler er markahæstur á öðrum degi jóla.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert