Þetta er formsatriði

John Terry fagnar Andre Schürrle eftir eitt marka Chelsea í …
John Terry fagnar Andre Schürrle eftir eitt marka Chelsea í vetur. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að það sé bara formsatriði að ganga frá nýjum samningi við fyrirliðann John Terry, en núgildandi samningur hans rennur út í vor.

Terry er 34 ára gamall og hefur spilað með Chelsea allan sinn feril en í haust voru uppi raddir um að þetta yrði síðasta tímabil hans með liðinu og hann færi sömu leið og Frank Lampard þar sem félagið myndi halda áfram að lækka meðalaldurinn í hópnum.

Terry hefur hinsvegar spilað mjög vel í vetur og kórónað það með því að skora í tveimur síðustu leikjum liðsins, sem sækir Southampton heim í dag.

„Þetta er formsatriði, það er engin spurning að hann fær nýjan samning. Ég veit það og hann veit það. Við í félaginu og stjórnarmennirnir vitum það, og ég held að þið hafið það líka á tilfinningunni. Þó við staðfestum ekkert þá finnið þið það á ykkur," sagði Mourinho á fréttamannafundi í gær.

„Hann er liðinu geysilega mikilvægur og það kemur því að því, fyrr eða síðar, að skrifað verður undir nýjan samning."

Leikur Southampton og Chelsea hefst klukkan 14.05. Chelsea er með 45 stig, Manchester City 42, Manchester United 35 og Southampton 32 í fjórum efstu sætum úrvalsdeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert