Lærdómsríkt að fara á bekkinn

Simon Mignolet í leik Liverpool og Real Madrid í Meistaradeild …
Simon Mignolet í leik Liverpool og Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í vetur. AFP

Simon Mignolet, markvörður Liverpool, segir að það hafi verið lærdómsríkt fyrir sig að vera settur út úr liðinu fyrr í þessum mánuði og hann hafi nýtt það til að bæta leik sinn. Mignolet verður í markinu í kvöld þegar Liverpool fær Swansea í heimsókn í síðasta leik ársins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, þar sem Brad Jones fór meiddur af velli gegn Burnley á öðrum degi jóla.

Mignolet var gagnrýndur talsvert fyrir frammistöðu sína framan af tímabilinu og var settur á bekkinn fyrir leik liðsins gegn Manchester United. Þar sat hann næstu þrjá leiki og segir að hann hafi rætt málin ítarlega við Brendan Rodgers knattspyrnustjóra.

„Við ræddum málin, gerðum upp hlutina, og það voru jákvæðar viðræður. Ég fer ekki meira út í það, efnislega, en þetta var opinská og heiðarleg umræða. Allt á sínar orsakir og ég er maður sem reynir ávallt að vera jákvæður og leggja hart að sér, og það hef ég gert að undanförnu ásamt Jones og markvarðaþjálfaranum," sagði Mignolet.

„Stundum þarf maður að búa til eitthvað jákvætt úr neikvæðu, eins og því að vera settur út úr liðinu, og það reyndi ég að gera. Það getur verið erfitt en ég er 26 ára gamall og veit að ég get enn unnið í mörgu sem ég get bætt mig sem markvörður.

Þetta gaf mér tækifæri til að skoða minn leik og ákveðna þætti í honum, sem annars hefði kannski ekki unnist tími til, og ég tel mig hafa lært ýmislegt af því. Ég þarf ekki að sanna eitt eða neitt, en það eina sem ég get gert er að leggja hart að mér og sýna hvað ég get þegar ég spila," sagði markvörðurinn.

Swansea er með 28 stig í 8. sæti deildarinnar en Liverpool 25 stig í 10. sætinu fyrir viðureign liðanna á Anfield í kvöld, sem hefst klukkan 20.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert