Liverpool undirbýr tilboð í Pjanic

Miralem Pjanic hefur leikið með Roma frá árinu 2011 og …
Miralem Pjanic hefur leikið með Roma frá árinu 2011 og þykir afar öflugur miðjumaður. AFP

Liverpool hefur mikinn áhuga á að næla í miðjumanninn snjalla Miralem Pjanic frá Roma og ætlar að bjóða ítalska félaginu 23,5 milljónir punda, jafnvirði 4,6 milljarða, fyrir Bosníumanninn.

Þetta fullyrðir ítalska blaðið Gazzetta dello Sport í dag. Þar segir að Liverpool sé í leit að eftirmanni Steven Gerrard og að félagið muni bjóða Pjanic rúmlega 3,1 milljón punda í árslaun, jafnvirði 620 milljóna króna.

Fleiri ítalskir miðlar fullyrða að Pjanic færist nær Liverpool en félagið hefur líkt og Manchester United látið útsendara fylgjast með kappanum í vetur. Samkvæmt miðlinum La Roma hefur Liverpool auk þess reynt að ræða við umboðsmann Pjanic. Il Messaggero segir hins vegar að Pjanic hafi ekki áhuga á að yfirgefa Roma fyrir Liverpool.

Pjanic er 24 ára gamall en hefur leikið með bosníska landsliðinu frá árinu 2008, alls 55 leiki og skorað 9 mörk. Hann kom til Roma frá Lyon í Frakklandi árið 2011 og hefur leikið 108 deildarleiki á Ítalíu, og skorað 15 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert