Setjum ekki pressu á Sturridge

Daniel Sturridge á æfingu Liverpool í dag.
Daniel Sturridge á æfingu Liverpool í dag. Ljósmynd/@LFC

Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool kveðst vera mjög ánægður með stöðu mála hjá framherjanum Daniel Sturridge sem er farinn að æfa með liðinu af krafti eftir að hafa verið frá keppni síðan hann meiddist á æfingu enska landsliðsins í byrjun september.

„Eftir að hann kom frá Bandaríkjunum þar sem hann var í sérstakri meðferð hefur hann verið mjög lifandi og einbeittur á að leggja eins hart að sér og hann mögulega getur. Hann hefur verið frábær á æfingum undanfarna daga og er aftur eins og hann á að sér að vera - kraftmikill, hraður og sterkur," sagði Rodgers á fréttamannafundi í dag.

„En við verðum að fara varlega því hann hefur verið lengi frá keppni. Við getum ekki sett of mikla pressu á hann og ætlast til þess að hann verði okkar bjargvættur frá fyrsta leik," sagði Rodgers.

Sturridge skoraði 21 mark fyrir Liverpool í úrvalsdeildinni í fyrra og var næstmarkahæstur í deildnni, á eftir þáverandi samherja sínum Luis Suárez. Á þessu tímabili hefur Sturridge aðeins spilað þrjá leiki og skorað eitt mark.

Mögulegt er að fyrsti leikur hans síðan í september verði gegn West Ham á Anfield á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert