Tekur Chelsea risaskref að titlinum í dag?

Leikmenn Chelsea fagna marki.
Leikmenn Chelsea fagna marki. mbl.is/epa

Einn af úrslitaleikjunum í ensku úrvalsdeildinni fer fram á Stamford Bridge síðdegis í dag þegar Chelsea fær Englandmeistara Manchester City í heimsókn.

Flestir sparkspekingar eru á því að þessi tvö peningamaskínulið heyi einvígi um titilinn í ár enda best mönnuðu liðin og hafa mestu breiddina. Chelsea trónir á toppi deildarinnar, hefur fimm stiga forskot á meistarana og með sigri í kvöld tækju lærisveinar José Mourinho í Chelsea risastórt skref í átt að fimmta Englandsmeistaratitlinum og þeim fyrsta í fimm ár.

Eins og deildin hefur spilast á þessu tímabili hefur verið miklu meiri liðsbragur á liði Chelsea heldur en Manchester-liðinu. Vopnabúr Chelsea-manna er öflugra og liðsheildin sterkari en City-liðið hefur of oft stólað á einstaklingsframtakið og það gengur ekki til lengdar. Það er hins vegar spurning hvort leikurinn á móti Liverpool í undanúrslitum ensku deildabikarkeppninni á þriðjudaginn sitji í liðsmönnum Chelsea en sá leikur tók eflaust einhvern toll af þeim.

Manchester City hefur ekki sótt gull í greipar Chelsea á Brúnni en liðið státar að eins af tveimur sigrum í úrvalsdeildinni, síðast árið 2010 þegar það hafði betur, 4:2. City hefur þó vegnað vel á útivöllum á tímabilinu og er ósigrað í öllum keppnum síðan 25. október.

Skörð eru hoggin í bæði lið. Markaskorarinn mikli Diego Costa er kominn í þriggja leikja bann og þeir Cesc Fabregas og Felipe Luis meiddust báðir í leiknum á móti Liverpool í deildabikarkeppninni og verða líklega ekki með. City er án miðjumannsins öfluga Yaya Touré og nýjasta liðsmannsins, Wilfried Bony, en báðir eru þeir með Fílabeinsströndinni í Afríkukeppninni. gummih@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert