Liverpool flaug vængbrotið til Tyrklands

Það eru stór skörð í liði Liverpool.
Það eru stór skörð í liði Liverpool. AFP

Liverpool verður án þeirra Philippe Coutinho og Jordans Henderson í síðari leik liðsins gegn Besiktas í 32ja-liða úrslitum Evrópudeildarinnar annað kvöld. Bætast þeir við stóran hóp leikmanna sem eru fjarverandi.

Coutinho verður hvíldur í leiknum og flaug ekki með til Tyrklands, en hann hefur byrjað nítján leiki í röð síðan í desembermánuði og Brendan Rodgers vildi leyfa honum aðeins að hlaða batteríin. Þá er Henderson, sem borið hefur fyrirliðabandið vegna meiðsla Stevens Gerrard, að glíma við meiðsli í ökkla. Vonast er til að hann verði klár gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Fleiri skakkaföll eru í liði Liverpool. Gerrard er enn meiddur og sömu sögu er að segja af Lucas, Mamadou Sakho, Jose Enrique, Glen Johnson og Jon Flanagan, auk þess sem Lazar Markovic er í banni.

Til að bregðast við þessu hefur Rodgers þurft að kalla til marga úr unglingaliði félagsins, svo sem Jordan Williams, Jermone Sinclair, Cameron Brannagan, Jordan Lussey og Ryan Fulton. Talið er að Martin Skrtel verði fyrirliði á morgun, en Liverpool vann fyrri leikinn 1:0 með marki frá Mario Balotelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert