Ferguson lét mig raka hanakambinn af

David Beckham er með fína greiðslu í dag.
David Beckham er með fína greiðslu í dag. AFP

David Beckham sagði í viðtali við BBC 1 að Sir Alex Ferguson hafi látið hann raka af þáverandi hanakamb sinn inni á klósetti á Wembley klukkutíma fyrir leik Manchester United gegn Chelsea um Góðgerðarskjöldinn árið 2000. 

Samband Beckhams við Ferguson átti svo eftir að verða sífellt verra með tímanum.

„Ég var í klefanum og það var klukkutími í leik þegar að Sir Alex Ferguson sá kambinn og lét mig raka hann af,“ sagði Beckham.

„Ég sagði nei í fyrstu, en þegar ég sá andlitið á honum breytast mjög hratt þá fór ég og rakaði hann af á kósettinu. Hann var mjög strangur,“ sagði Beckham sem segir hárgreiðslur sínar að eigin mati vera mjög misjafnar.

„Sumar þeirra eru mjög slæmar, ég var ekki búinn að hugsa þær til enda,“ sagði Beckham.

 „Þær voru ekki allar slæmar en flétturnar voru slæm ákvörðun. Það var slæm tímasetning þar sem við vorum á leiðinni til Suður-Afríku þegar enska landsliðið fór þangað. Það fór svo að við hittum Nelson Mandela og það er ástæðan fyrir því að ég sé eftir þeirri greiðslu,“ sagði Beckham.

Hér að neðan má sjá nokkrar af hárgreiðslum Beckhams.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert