Rooney skaut United upp í þriðja sætið

Wayne Rooney fagnar fyrra marki sínu.
Wayne Rooney fagnar fyrra marki sínu. AFP

Manchester United endurheimti þriðja sætið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag þegar liðið hafði betur gegn Sunderland, 2:0, á Old Trafford.

Wayne Rooney skoraði bæði mörk United í seinni hálfleik. Það fyrra kom úr vítaspyrnu og í kjölfarið var Wes Brown, fyrrverandi leikmanni United, vikið af velli en þá voru 25 mínútur til leiksloka. United er með 50 stig en Arsenal er í 4. sætinu með 48 stig en mætir Everton á morgun.

Aston Villa tapaði sjöunda leiknum í röð þegar liðið lá fyrir Newcastle, 1:0, á St.James Park. Papis Cisse skoraði eina mark leiksins.

Swansa, án Gylfa Þórs Sigurðssonar sem er meiddur, vann góðan 1:0 útisigur gegn nýliðum Burnley þar sem sjálfsmark Kieran Trippier á 65. mínútu réði úrslitum. Swansea er með 40 stig í áttunda sætinu.

WBA fagnaði 1:0 sigri gegn Southampton og skoraði Saido Berahino sigurmarkið strax á 2. mínútu leiksins.

Varamaðurinn Peter Crouch tryggði Stoke 1:0 sigur á móti Hull á Britannia. Þetta var fjórða mark framherjans hávaxna í síðustu fjórum leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert