Glæsimörk Liverpool sökktu City-mönnum

Liverpool er komið upp í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir að liðið lagði Englandsmeistara Manchester City á Anfield nú rétt í þessu, 2:1, í stórskemmtilegum leik. Fylgst var með gangi mála  í ENSKA BOLT­AN­UM Í BEINNI hér á mbl.is.

Strax á tíundu mínútu kom fyrsta mark leiksins, en það skoraði Jordan Henderson með mögnuðu skoti við vítateigsbogann sem fór beinustu leið upp í skeytin fjær. Frábært mark og öflug byrjun heimamanna. Sergio Agüero átti skot í stöng skömmu síðar fyrir City, en hann var arkitektinn að jöfnunarmarki liðsins á 26. mínútu.

Agüero fékk þá boltann utan teigs, hann var sem límdur við lappirnar á honum og dró að sér þrjá varnarmenn Liverpool, sem gaf Edin Dzeko mikið pláss á teignum. Agüero náði að þræða boltanum innfyrir vörnina þar sem eftirleikurinn var auðveldur fyrir Dzeko. 1:1 í hálfleik.

Heimamenn voru sterkari aðilinn eftir hlé og pressuðu meira, en bæði lið fengu sín færi. Þegar stundarfjórðungur var eftir dró svo til tíðinda þegar Philippe Coutinho fékk boltann við vítateigshorn City, tók netta gabbhreyfingu og þrumaði boltanum svo í bláhornið. Ekki mikið síðra en hjá Henderson.

City-menn reyndu hvað þeir gátu að jafna metin, en allt kom fyrir ekki. Daniel Sturridge hefði getað gulltryggt sigur Liverpool í lokin, en brást bogalistin úr fínu færi. Það kom ekki að sök, vörn heimamanna hélt út og sigurinn í höfn, 2:1.

Liverpool hefur nú 48 stig í fimmta sætinu og jafnaði Arsenal að stigum, sem á þó leik til góða gegn Everton síðar í dag. 

Fylgst er með gangi mála í ENSKA BOLT­AN­UM Í BEINNI hér á mbl.is í allan dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert