Mourinho vildi ekki taka við Tottenham

Jose Mourinho er snillingur í sálfræðistríðunum fyrir stórleiki.
Jose Mourinho er snillingur í sálfræðistríðunum fyrir stórleiki. AFP

Sálfræðistríðið fyrir úrslitaleik deildabikarsins á Englandi er fyrir löngu hafið, en Chelsea og Tottenham mætast í úrslitunum seinni partinn í dag. Jose Mourinho kom með innlegg í þá umræðu þegar hann sagðist hafa hafnað því að taka við liði Tottenham á sínum tíma.

Mourinho segir að Tottenham hafi falast eftir kröftum hans þegar hann fór frá Chelsea árið 2007, en það var klásúla í brotthvarfi hans að hann mætti ekki þjálfa á Englandi næstu tvö árin. „Ég mátti ekki taka við þeim,“ sagði Mourinho, en Tottenham bauðst meðal annars til að greiða Chelsea fyrir að fá Portúgalann.

En hefði hann íhugað að taka við þeim hefði það staðið til boða? „Nei, því ég elska Chelsea og stuðningsmenn liðsins of mikið,“ sagði Mourinho, en liðin tvö koma bæði frá Lundúnum og því skiljanlega rígur þar á milli.

Tottenham vildi fá Mourinho til að taka við af Martin Jol, en réðu í staðinn hinn spænska Juande Ramos, sem meðal annars vann deildabikarinn með Tottenham þann sama vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert