Úrslitaleikir eru til að vinna þá

Jose Mourinho fagnaði manna mest eftir að Chelsea hafði betur gegn Tottenham, 2:0, í úrslitaleik enska deildabikarsins í knattspyrnu í dag. Þetta var þriðji deildameistaratitill félagsins undir stjórn Mourinho og sá fyrsti frá árinu 2007.

„Ég er mjög glaður. Ég vil þakka Tottenham og Mauricio Pochettino fyrir leikinn, þeir eru með flott lið og gáfu okkur mikla mótspyrnu. Ég kenni í brjósti um þá,“ sagði Mourinho eftir leikinn.

„Allir leikmennirnir voru frábærir. Úrslitaleikir eru ekki til að spila þá, heldur til að vinna þá. Við áttum ekki í erfiðleikum með það í dag, þeir fengu nokkur hálffæri en ekkert meira. Við vissum að við yrðum hættulegir í skyndisóknum og við spiluðum nákvæmlega eins og á að spila úrslitaleiki,“ sagði Mourinho og minntist sérstaklega á liðsheildina.

„Maður leiksins? Það eru Thibaut Courtois og Filipe Luis því þeir voru frábærir gegn Liverpool. Það er Andreas Christensen sem var góður gegn Shrewsbury. Það er ekki bara John Terry þó hann hafi verið frábær í þessum leik, því við erum lið. Ég mjög stoltur af öllum strákunum,“ sagði Mourinho og fær ekki leiða á að vinna titla.

„Þú verður aldrei of gamall til að fagna og getur aldrei unnið of marga titla. Þetta er minn 24. en ég er enn eins og lítill krakki eins og þegar ég vann minn fyrsta,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert