Veit ekki hvenær di María mun aðlagast

Lois van Gaal.
Lois van Gaal. AFP

Louis van Gaal knattspyrnustjóri Manchester United segir Argentínumanninn hjá félaginu, Ángel di María, þurfa meiri tíma til að aðlagast lífinu á Englandi en kappinn hefur spilað verulega undir getu í undanförnum leikjum og var tekinn af velli í hálfleik í sigurleiknum gegn Sunderland um síðustu helgi.

„Ég held að það gildi fyrir alla þá leikmenn sem við keyptum; fyrsta tímabilið er alltaf erfitt,“ sagði van Gaal og bætti við nöfnum nýrra leikmanna; „... Shaw, Blind, Herrera, Falcao og einnig di María.“

„Ég hef kynnst þessari sömu reynslu í Hollandi, á Spáni og í Þýskalandi. Við þurfum að gefa þeim tíma, ekki bara di María, heldur öllum leikmönnum. Við bíðum og sjáum,“ sagði van Gaal sem veit ekki hversu langan tíma það mun taka fyrir di María að komast í gang.

„Það veltur á ýmsu, huga þarf að mörgum þáttum, ekki bara fótboltanum heldur menningunni. Hið almenna svar væri eitt ár en þú getur ekki gefið almennt svar. Það er auðvelt að segja það, en ómögulegt að sanna það. Það er ekki vísindalega sannað,“ sagði van Gaal.

Ángel di María í leiknum gegn Sunderland um helgina.
Ángel di María í leiknum gegn Sunderland um helgina. EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert