Gomis þakkar stuðninginn

Bafetimbé Gomis á fullri ferð.
Bafetimbé Gomis á fullri ferð. AFP

Bafétimbi Gomis, franski knattspyrnumaðurinn hjá Swansea sem hneig niður í leik liðsins við Tottenham á White Hart Lane í kvöld, segir að hann sé í fínu lagi eftir aðhlynningu á sjúkrahúsi.

Atvikið leit ekki vel út en upplýst var fljótlega að leikmaðurinn ætti þetta til og svipað hefði hent hann nokkrum sinnum þegar hann var leikmaður Lyon í Frakklandi

Gomis sendi frá sér eftirfarandi orðsendingu á Twitter fyrir stundu:

„Ég vil fullvissa ykkur um atriði varðandi heilsu mína, þetta leit illa út en var ekkert hættulegt og mér líður vel núna.

Ég hef verið undir geysilegu álagi og verið mjög þreyttur undanfarið en vegna slæmrar heilsu föður míns hef ég þurft að vera á ferðinni til og frá Frakklandi.

Ég er leiður yfir því að hafa ekki getað hjálpað liðinu í kvöld en nú er allt komið í eðlilegt horf.

Ég vil líka þakka öllum fyrir stuðninginn og bataóskirnar sem ég fékk."

Hér fyrir neðan má sjá myndir af Gomis á White Hart Lane í kvöld:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert