Balotelli þroskast hjá Rodgers

Mario Balotelli
Mario Balotelli "fagnar" marki fyrir Liverpool. AFP

Mino Raiola, umboðsmaður ítalska framherjans Mario Balotelli, segir að skjólstæðingur sinn sé kominn á mjög áhugaverðan kafla á ferli sínum því nú sé hann í höndum knattspyrnustjóra sem geri til hans nýjar kröfur.

„Einmitt núna er mjög athyglisverð þróun í gangi á ferlinum hjá Mario. Hann er kominn til þjálfara sem gerir til hans kröfur sem aldrei hafa verið gerðar áður. Þar á meðal er hvernig hann hreyfir sig þegar hann er ekki með boltann.

Nú er hann að þroskast sem persóna og sem knattspyrnumaður, og þetta mun styrkja hann mikið. Hann er stoltur af liðinu sem hann spilar með, og það er mikilvægasta atriðið," sagði Raiola í viðtali við útvarpsstöðina RMC.

Balotelli hefur átt í erfiðleikum með að ná sér á strik með Liverpool og ekki tekist að festa sig í sessi í liðinu hjá Rodgers. Hann hefur aðeins náð að skora eitt mark í þrettán leikjum í úrvalsdeildinni. Þá er hann með eitt mark í fimm bikarleikjum og tvö mörk í fimm Evrópuleikjum fyrir félagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert