Gerrard mun ekki ganga inn í liðið

Steven Gerrard.
Steven Gerrard. EPA

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að Steven Gerrard muni ekki ganga inn í liðið um leið og hann verði klár. Liverpool hefur spilað afar vel í fjarveru fyrirliðans og unnið alla leiki í deildinni án hans í vetur.

Gerrard gæti snúið aftur fyrir bikarleik liðsins gegn Blackburn á sunnudag en hann er enn tæpur vegna meiðsla.

„Það er enginn í liðinu sem gengur bara beint inn í liðið. Ég hef sýnt það á mínum tíma hér að leikmenn sem standa sig vel, óháð verði eða stöðu, spila, þetta er mjög einfalt,“ sagði Rodgers.

„Steven er mikill liðsmaður og ef hann er á bekknum af því að liðið spilar vel þá held ég að allir virði það,“ sagði Rodgers sem vill alls ekki að Gerrard og Jordan Henderson, varafyrirliði Liverpool, séu bornir saman.

„Þeir eru allt öðruvísi. Steven er einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi og ég heft sagt það áður að það þýði lítið að bera þá saman,“ sagði Rodgers.

„Jordan er ungur maður, mjög efnilegur en allt öðruvísi tegund af leikmanni. Það á ekki að setja pressu á leikmann eins og Jordan Henderson. Það að þeir taka báðir hornspyrnur og skjóta fyrir utan þýðir ekki að hann sé hinn nýi Gerrard,“ sagði Rodgers og hélt áfram.

Hann er Jordan Henderson, og er búa til sínar eigin fyrirsagnir og hann er varafyrirliði. Ég myndi biðja hvern einasta unga leikmann í heiminum að fara að fordæmi Gerrards af því að hann er ótrúlegur atvinnumaður og ótrúlegur knattspyrnumaður,“ sagði Rodgers.

Brendan Rodgers.
Brendan Rodgers.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert