Búið að reka Poyet

Úrúgvæanum Gus Poyet hefur verið sagt upp störfum.
Úrúgvæanum Gus Poyet hefur verið sagt upp störfum. AFP

Samkvæmt vefútgáfu enska blaðsins The Guardian mun enska úrvalsdeildarfélagið Sunderland vera búið að segja knattspyrnustjóra sínum Gus Poyet upp störfum og segir blaðið að líklegur arftaki sé Hollendingurinn Dick Advocaat.

Liðið tapaði stórt fyrir Aston Villa á heimavelli um helgina, 4:0 og varð það kornið sem fyllti mælinn hjá stjórn Svörtu Kattanna.

Poyet stýrði liðinu í 17 mánuði og bjargaði liðinu ævintýralega frá falli á síðustu leiktíð. Sunderland var þá í fallsæti um jólin en varð annað liðið í sögunni til að bjarga sér frá falli þrátt fyrir þá staðreynd.

Liðið vann þá fjóra af síðustu fimm leikjum sínum í deildinni; þar á meðal gegn Chelsea og Manchester United en gerði jafntefli við Manchester City.

Sunderland er í 17. sæti með 26 stig, stigi fyrir ofan Burnley sem er í fallsæti.

Liðið hefur ekki unnið leik í síðustu sjö leikjum sínum en af þessum sjö hafa fjórir tapast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert