Er mark í fyrsta leik ávísun á frægð og frama?

Harry Kane var vel fagnað eftir mark sitt í gær.
Harry Kane var vel fagnað eftir mark sitt í gær. AFP

Eins og kunnugt er skoraði Harry Kane sitt fyrsta landsliðsmark fyrir England eftir að hafa komið inn á sem varamaður gegn Litháen í gær, en markið kom eftir að hann hafði verið á vellinum í einungis 78 sekúndur.

Miklar vonir eru bundnar við hinn unga framherja en mark í fyrsta landsleik tryggir ekki frama í treyju Englands. Eins og Sky orðaði það í morgun; fyrir hvern Alan Shearer er einn Francis Jeffers - en báðir skoruðu þeir í sínum fyrsta landsleik.

Shearer skoraði í sínum fyrsta landsleik fyrir Englendinga gegn Frökkum árið 1992, og er hann gott dæmi um framherja sem náði frama með Englandi. Hann skoraði alls 30 landsliðsmörk og er markahæsti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildinnar.

Alan Shearer skoraði í sínum fyrsta landsleik og er ein …
Alan Shearer skoraði í sínum fyrsta landsleik og er ein af stjörnum enskrar knattspyrnu.

Sir Bobby Charlton, markahæsti leikmaður í sögu enska landsliðsins, skoraði einnig í sínum fyrsta landsleik en það var gegn Skotum árið 1958. Hann skoraði þá eftir sendingu Toms Finney í 4:0 sigri og bætti um betur í næsta leik sínum með tveimur mörkum gegn Portúgal. Glenn Hoddle er annað dæmi um stjörnu sem skoraði í sínum fyrsta landsleik, en allir þrír eru þeir í hávegum hafðir í enskri knattspyrnu.

Misjafn sauður í mörgu fé

Þessir þrír frábæru leikmenn sem nefndir hafa verið eru þó í hópi með öðrum sem ekki náðu sama frama þrátt fyrir að skora í sínum fyrsta landsleik. Fyrstan skal nefna Francis Jeffers, sem spekingar kalla ein mestu vonbrigði enskrar knattspyrnu á síðari árum.

Francis Jeffers náði aldrei að standa undir væntingum.
Francis Jeffers náði aldrei að standa undir væntingum.

England tapaði 3:1 fyrir Ástralíu árið 2003 og var það Jeffers sjálfur sem skoraði. Þetta reyndist þó eini landsleikur hans, og er leiksins frekar minnst fyrir þær sakir að Wayne Rooey varð yngsti leikmaðurinn í sögu landsliðsins þegar hann kom inná, 17 ára og 111 daga gamall.

David Nugent, leikmaður Leicester, skoraði einnig í sínum fyrsta leik árið 2007 gegn Andorra. Hann er í sama flokki og Jeffers því þetta var sömuleiðis hans eini landsleikur og hans hefur ekki verið sárt saknað.

Miklar vonir voru bundnar við Kieran Richardson þegar hann kom upp hjá liði Manchester United. Ekki dró úr því þegar hann skoraði tvívegis í sínum fyrsta landsleik sem var gegn Bandaríkjunum árið 2005, þar af annað markið beint úr aukaspyrnu. Ekki náði hann þó að halda dampi eins og frægt er og eru þetta einu mörkin sem hann skoraði í þeim átta landsleikjum sem hann hefur á bakinu.

Við sjáum því að það er ekki hægt að tryggja það að draumabyrjun Harrys Kane leiði hann beint á toppinn. Einungis tíminn mun leiða í ljós hvernig hans verður minnst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert