Fleiri heltast úr lestinni hjá Englandi

Raheem Sterling skorar í gær, en hann verður ekki til …
Raheem Sterling skorar í gær, en hann verður ekki til taks gegn Ítalíu. AFP

Það hefur verið óhemju erfitt fyrir Roy Hodgson, landsliðsþjálfara Englendinga, að undirbúa lið sitt fyrir verkefnin sem nú eru í gangi. Fjórir leikmenn duttu úr hópnum vegna meiðsla fyrir 4:0-sigurinn á Litháen í gær og nú hefur enn bæst í þann hóp.

England mætir Ítalíu í vináttuleik á þriðjudag, og þrír leikmenn sem spiluðu í gær verða ekki til taks í þeim leik. Raheem Sterling og James Milner meiddust lítillega í sigrinum í gær ásamt Danny Welbeck, g þá mun Leighton Baines heldur ekki vera klár í slaginn. Í hans stað hefur Ryan Bertrand verið kallaður í hópinn en óvíst er hvort fleirum verður bætt við.

Hodgson hafði gert samkomulag við Brendan Rodgers, stjóra Liverpool, að nota Sterling ekki í vináttuleiknum gegn Ítalíu. Sterling hefur verið að glíma við meiðsli og þarfnast sprautu fyrir hvern leik, og Liverpool-menn vilja ólmir að hann nái að klára tímabilið með þeim.

„Við verðum án margra manna fyrir leikinn sem skiptir okkur miklu máli og mig sérstaklega líka,“ sagði Hodgson, sem þjálfaði bæði Inter Mílanó og Udinese á Ítalíu.

Fyrir leikina tvo þurftu þeir Fraser Forster, Adam Lallana og Daniel Sturridge allir að draga sig úr hópnum auk Danny Rose, sem hafði verið kallaður upp til vara. Nú þegar enn bætist í þann hóp er ljóst að Hodgsons bíður ærið verkefni að stilla upp liði sínu gegn Ítölum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert