Zlatan fæddur til að spila á Old Trafford

Á United að falast eftir Zlatan Ibrahimovic?
Á United að falast eftir Zlatan Ibrahimovic? AFP

Peter Schmeichel, ein af goðsögnum Manchester United, hefur hvatt Louis van Gaal, knattspyrnustjóra liðsins, að krækja í sænska framherjann Zlatan Ibrahimovic, leikmann PSG, í sumar.

Zlatan hefur komið víða við á ferlinum og meðal annars leikið fyrir Ajax, Juventus, Inter Mílanó og Barcelona en hann verður 34 ára á árinu. Þrátt fyrir það segir Schmeichel að Svíinn gæti haft svipuð áhrif og Eric Cantona hafði á sínum tíma á Old Trafford.

„Zlatan var orðaður við United síðasta sumar og að mínu viti var hann fæddur til að spila á Old Trafford. Af hverju blómstraði Cantona þegar hann kom, en ekki hjá Leeds eða hjá félögunum í Frakklandi? Það er af því að hann var hjá Manchester United. Þar springa leikmenn út,“ sagði danski markvörðurinn.

„Það skiptir ekki máli hver þú ert, það er einungis horft til þess hvað þú gerir á vellinum og hvernig karakter þú ert. Við höfum haft marga slíka, til dæmis Beckham og Cantona. Það eru hundruðir leikmanna sem reyna að líkja eftir þeim en það er persónuleikinn sem skiptir svo miklu máli,“ sagði Schmeichel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert