Þetta snýst alls ekki um peninga

Raheem Sterling.
Raheem Sterling. EPA

Samningamálin hjá Raheem Sterling sóknarmanni Liverpool hafa verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur en í viðtali við BBC í dag hélt hann því fram að peningar væru ekki það eina sem hann hugsaði um og þeir væru ekki ástæðan fyrir því að hann hafi hafnað nýjum samningi við félagið.

Í viðtalinu kom einnig fram að hann muni ekki ræða við félagið um þessi mál fyrr en í sumar, sama hversu stór sá samningur yrði.

„Þetta snýst alls ekki um peninga. Þetta hefur aldrei gert það. Ég tala um að vinna titla á ferlinum. Það er það eina sem ég tala um,“ sagði Raheem Sterling í viðtali við BBC Sport en þar sagðist hann hafa hafnað nýjum samningi við Liverpool sem hljóðaði upp á 100 þúsund pund. Þó ekki af peningalegum ástæðum.

„Ég tala ekki um það hversu marga bíla ég ætla að keyra eða hversu mörg hús ég á. Ég vil hreinlega bara standa mig eins vel og ég get,“ sagði Sterling.

„Ég vil ekki að fólk horfi á mig sem gráðugan tvítugan strák,“ sagði Sterling sem á tvö ár eftir af samningi sínum við Liverpool en hann fær um 35,000 pund á viku, eða um sjö milljónir íslenskra króna.

„Ég vil bara að fólki horfi á mig sem strákinn sem elskar að spila fótbolta og vill gera sitt besta fyrir liðið,“ sagði Sterling.

Í viðtalinu kom einnig fram að Sterling hefði skrifað undir samning sem hljóðaði upp á minna en 100 þúsund pund á viku hefði honum verið boðinn slíkur samningur undir lok síðasta tímabils. Það var hins vegar ekki gert.

Sterling hefur verið orðaður við gríðarlega mörg félög og mörg þeirra eru stór; Real Madrid, Bayern München, Manchester City og Arsenal sem Liverpool mætir á laugardag en Sterling sagðist meðal annars vera „aðeins upp með sér“ að hafa verið orðaður við Skytturnar.

„Ég reyni að hunsa þetta en ég held að almenningur horfi ekki þannig á málin. Það eina sem hann sér er tvítugur gráðugur strákur,“ sagði Sterling.

Það sem er Sterling efst í huga núna er að spila vel og að hjálpa Liverpool að vinna FA-bikarinn en liðið mætir Blackburn í átta liða úrslitunum í næstu viku og Aston Villa í undanúrslitunum fari liðið þangað.

„Ég vil bara einbeita mér að fótboltanum núna. Eftir tímabilið mun ég svo meta stöðu mína sem tvítugur knattspyrnumaður sem spilar í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Raheem Sterling.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert