United án lykilmanna gegn Chelsea

Michael Carrick haltraði af velli í síðasta leik og verður …
Michael Carrick haltraði af velli í síðasta leik og verður ekki með á morgun AFP

Chelsea og Manchester United eigast við í stórleik umferðarinnar í ensku knattspyrnunni á morgun. Leikurinn fer fram á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea, og hefst klukkan 16.30. 

United verður án nokkurra leikmanna í leiknum en Michael Carrick, Daley Blind, Marcos Rojo og Phil Jones verða allir fjarri góðu gamni. Carrick haltraði af velli í 4:2 sigri liðsins á grönnunum í Manchester City síðastliðinn sunnudag og er enn meiddur.

Johnny Evans er enn frá en hann er að taka út leikbann fyrir að hafa hrækt á Papiss Cisse, sóknarmann Newcastle. Luke Shaw er hins vegar leikfær og gæti því leikið í vinstri bakverðinum.

Louis Vaan Gaal, knattspyrnustjóri United segir þetta ekki góðar fréttir og það vanti full marga leikmenn í vörnina. „Þetta er það versta sem gat gerst. Rojo og Jones geta báðir leyst miðvarðarstöðuna og Evans er enn í banni, þannig að ég hef ekki marga möguleika, sagði Vaan Gaal.

Honum finnst liðið einnig fáliðað á miðsvæðinu. „Blind og Carrick geta báðir leyst stöðu varnarsinnaðs miðjumanns og ég hef ekki annan leikmann í þá stöðu. Þetta verður því smá púsl.“

Flestir leikmenn Chelsea eru klárir í slaginn á morgun. Diego Costa, framherjinn skæði, verður ekki með en hann glímir við meiðsli. Veikir það lið Chelsea töluvert, enda fáir sóknarmenn jafngóðir í því að atast í varnarmönnum andstæðinganna og Costa. 

United hefur leikið vel upp á síðkastið og er í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar, átta stigum á eftir Chelsea sem eiga leik til góða. Gengi liðanna hefur verið mjög svipað það sem af er ári. Chelsea hefur leikið 12 leiki og hlotið 27 stig á meðan United hefur leikið 13 leiki og nælt í 29 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert