Borða humar og drekka kampavín

Jose Mourinho.
Jose Mourinho. AFP

José Mourinho er magnaður náungi. Á blaðamannafundi í gær kippti hann sér ekkert upp við það að leikmenn Chelsea væru þeir sem hegðuðu sér verst af öllum liðum í ensku úrvalsdeildinni inni á knattspyrnuvellinum. Líkt og svo oft áður hefur hann sínar einstöku kenningar.

„Þetta veltur á matnum og drykknum. Við þurfum að breyta veisluþjónustunni hjá okkur þar sem ég tel að þeir (eftirlitsmenn á vegum enska knattspyrnusambandsins) séu hreinlega ekki að horfa á leikina. Í alvöru.“ sagði Mourinho en Chelsea mætir Manchester United kl. 16.30 í dag í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni.

„Við höfum bestu þjónana og bestu drykkina, ég held að þeir séu bara inni að borða og drekka,“ sagði Mourinho en þegar Nemanja Matic miðjumanni Chelesa var vikið að leikvelli fyrr á tímabilinu sagði Mourinho:

„Sá eini sem ég hitti var sá frábæri náungi sem gerði skýrsluna um Matic. Sá fékk sushi, humar, allt. Hann fékk sér allt. Kampavín í hæsta gæðaflokki í kristalglasi! Allt saman,“ sagði Mourinho og hélt áfram. „Við ættum frekar að gefa þeim brauð og vatn.“

Í viðtali kom einnig fram að Mourinho teldi að það væri erfiðara að stýra Chelsea heldur en Manchester United vegna reglanna um fjármálalega háttvísi félaga (e. financial fairplay).

„Já það er auðveldara (að stýra Man. United). Áður fyrr var auðveldara að stýra Chelsea en þetta er skemmtilegra svona, en erfiðara, auðvitað. Við seldum fullt af leikmönnum, ekki bara Juan (Mata),“ sagði Mourinho en Manchester United er eitt tekjuhæsta félag í heimi og getur því eytt meiri peningum í leikmenn án þess að þurfa að selja á móti til þess að jafna bókhaldið.

„Þeir leikmannahópur eru ótrúlegur hvað varðar breidd, leikmenn, reynslu og lausnarmöguleika,“ sagði Mourinho sem sagðist til að mynda hafa þurft að fara með einn framherja, Didier Drogba, í heimsókn til QPR í síðustu umferð.

„Í fyrsta skipti þá lentum við í vandræðum. Þú verður samt að bjarga þér,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert