Eiður og Jóhann höfðu góð áhrif

Dan Gosling og félagar í Bournemouth hafa komið skemmtilega á …
Dan Gosling og félagar í Bournemouth hafa komið skemmtilega á óvart í B-deildinni í vetur. AFP

Eiður Smári Guðjohnsen og Jóhann Berg Guðmundsson komu inná sem varamenn hjá Bolton og Charlton í ensku B-deildinni í knattspyrnu í dag, og höfðu góð áhrif á sín lið sem voru bæði að tapa þegar Íslendingunum var skipt inná.

Jóhann var aldrei þessu vant á bekknum hjá Charlton sem var 0:1 undir í hálfleik gegn Leeds. Honum var skipt inná í byrjun síðari hálfleiks og hans menn voru ekki lengi að snúa taflinu sér í hag og sigruðu, 2:1. Charlton er í 10. sæti með 60 stig.

Eiður kom inná hjá Bolton gegn Brentford á 65. mínútu í London en Brentford var þá yfir, 2:1. Aðeins fjórum mínútum síðar jafnaði Mark Davies fyrir Bolton, 2:2, og þar við sat. Bolton er í 17. sæti með 51 stig.

Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn með Cardiff sem mátti sætta sig við 0:0 jafntefli á heimavelli gegn Millwall. Cardiff er í 13. sæti með 56 stig.

Watford vann mikilvægan sigur í gífurlega harðri keppni um sætin í úrvalsdeildinni, á meðan Bournemouth missti af tveimur stigum þegar liðið fékk á sig mark á sjöundu mínútu í uppbótartíma. Watford vann Birmingham 1:0 en Bournemouth mátti sætta sig við jafntefli, 2:2, gegn Sheffield Wednesday á heimavelli.

Watford er með 85 stig, Bournemouth 84, Middlesbrough 84 og Norwich 82 stig þegar tveimur umferðum er ólokið en tvö þessara liða fara beint upp og hin tvö liðin fara í umspil.

Slagurinn er ekki síður harður um hin tvö umspilssætin en öll fjögur liðin sem þar berjast gerðu jafntefli í dag. Derby er með 76 stig, Ipswich 75,  Brentford 72 og Wolves 72. Mesta dramatíkin var hjá leikmönnum Derby sem voru 3:1 undir í hálfleik í Huddersfield en jöfnuðu 3:3 og síðan 4:4 sem urðu lokatölurnar.

Jóhann er að vonum ánægður með úrslitin í dag:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert