Mikil framherjavandræði hjá Chelsea

Didier Drogba skallar boltann.
Didier Drogba skallar boltann. AFP

Efsta lið ensku úrvalsdeildarinnar, Chelsea, er í miklum framherjavandræðum um þessar mundir en Didier Drogba, framherji liðsins, meiddist á ökkla í leik liðsins gegn Manchester United og óvíst er um þátttöku hans gegn Arsenal í leik liðanna á sunnudag.

Fyrir eru þeir Diego Costa og Loic Rémy meiddir en hinn 37 ára gamli Drogba hefur farið fyrir sókn Chelsea-manna í síðustu tveimur leikjum.

Mögulega nær Rémý leiknum gegn Arsenal en að sögn José Mourinho voru yfir 50% líkur á að hann næði leiknum gegn Manchester United á laugardag. Hann var þó ekki í leikmannahópi liðsins þá.

Diego Costa á að geta spilað síðustu fjóra leikina með Chelsea en sex leikir eru eftir af deildinni.

Drogba þurfti sjálfur að hætta við góðgerðarleik í Frakklandi vegna meiðslanna en leikurinn átti að fara fram í Frakklandi í dag í árlegum styrktarleik gegn fátækt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert