City vann Villa í ótrúlegum leik

City-menn fagna marki í dag.
City-menn fagna marki í dag. PAUL ELLIS

Englandsmeistarar Manchester City unnu ótrúlegan 3:2 sigur á Aston Villa í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Brasilíumaðurinn Fernandinho var hetja City-manna og skoraði sigurmark þeirra á 89. mínútu leiksins eftir magnaðar lokamínútur en heimamenn í City komust í 2:0.

Leikurinn hófst á afar skrautlegri uppákomu þar sem markvörður Villa, Brad Guzan gerði sig sekan um skelfileg mistök þegar misheppnuð sending hans fór beint á Sergio Agüero sem þakkaði pent fyrir sig og skaut knettinum í netið, 1:0.

Margir héldu sigurinn vera í höfn þegar Aleksandar Kolarov skoraði með skoti úr aukaspyrnu á 66 mínútu en risastórt gat var á varnarvegg Aston Villa sem þessi sparkvissi Rússi nýtti sér, 2:0.

Tom Cleverley, lánsmaður frá Manchester Unites minnkaði hins vegar muninn tveimur mínútum síðar eftir slæmt úthlaup frá Joe Hart markverði City, 2:1.

Villa-menn jöfnuðu svo metin á 85. mínútu eftir hornspyrnu þar sem Carlos Sánchez skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið, 2:2.

Það var hins vegar varamaðurinn Fernandinho sem tryggði City stigin þrjú með marki á 89. mínútu en aðeins mínútu áður var Christian Benteke, framherji Aston Villa í algjöru dauðafæri en hann var flaggaður ranglega rangstæður, 3:2 lokatölur.

City hefur 67 stig í 2. sætinu en hefur spilað tveimur leikjum meira en Chelsea fyrir ofan þá með 76 stig og Arsenal fyrir neðan þá með 66 stig. Auk þess að Manchester United leik til góða á þá en liðið hefur 65 stig.

Aston Villa hefur 32 stig 15. sæti, tveimur meira en Sunderland sem er í fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert