Þurfum ógn í sóknarlínuna - Mögulega búið hjá Sturridge

Brendan Rodgers.
Brendan Rodgers. AFP

Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool neitaði að ræða um Memphis Depay vængmann PSV Eindhoven í Hollandi á blaðamannafundi í Liverpool í dag en segir hann þó afar hæfileikaríkan.

Liverpool er í harðri baráttu við Manchester United ásamt öðrum stærri klúbbum í Evrópu um kappann og orðrómur barst í liðinni viku að Depay hefði fundað með Rodgers.

„Ég vil ekki staðfesta neitt [um Depay].Strákurinn er mjög hæfileikaríkur,“ sagði Brendan Rodgers á blaðamannafundi á Melwood í dag.

„Við munum skoða fjölda leikmanna, svo veltur þetta á félaginu hvort það hefur efni á þeim eða ekki. Það er klárt mál að við þurfum einhverna ógn á næsta ári í sóknarlínuna. Við þurfum framherja, það er forgangsmál en við munum skoða það sem er í boði og vinna frá því,“ sagði Rodgers.

„Ég hef góðan hóp leikmanna, en eðlilegt ferli hjá sumum leikmönnum er það að þeir vilja færa sig um set. Við erum með nokkra sem hafa ekki spilað jafn mikið og aðrir á síðustu árum,“ sagði Rodgers sem talaði einnig um Daniel Sturridge sem hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu.

„Þetta hefur verið erfitt, Daniel er góður strákur og vill spila og hjálpa liðinu. Þetta er bara ein af þessum leiktíðum. Hann hefur verið mjög óheppinn, við munum fylgjast með honum frá degi til dags og sjá stöðuna á honum. Þegar hann hefur verið 100% klár, hefur hann verið frábær. Hann þarf að ná sínu fyrra formi, hvort sem það verður á þessu tímabili, eða á undirbúningstímabilinu, það á eftir að koma í ljós,“ sagði Rodgers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert