Fimm mínútum frá gjaldþroti - nú í úrvalsdeild

Leikmenn Bournemouth fagna marki.
Leikmenn Bournemouth fagna marki.

Fyrir sjö árum munaði engu að enska knattspyrnufélagið Bournemouth yrði lýst gjaldþrota. Í gærkvöld tryggði það sér sæti í úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í sögunni, með þeim fyrirvara að ekki verði 20 marka sveifla í leikjum þess og Middlesbrough í lokaumferð B-deildarinnar.

Bournemouth hefur löngum leikið í neðri deildunum og var í D-deildinni árið 2008 þegar gjaldþrot blasti við. Jeff Mostyn, stjórnarformaður, borgaði þá 100 þúsund pund úr eigin vasa á síðustu stundu, fimm mínútum áður en taka átti félagið til gjaldþrotaskipta.

Árið eftir þurfti Bournemouth að hefja tímabilið í D-deildinni með 17 mínusstig og liðinu tókst naumlega að forðast að falla út úr deildakeppninni.

En síðan hefur leiðin legið hratt upp á við og Mostyn hafði ástæðu til að fagna vel í gærkvöld, en myndband af honum í taumlausri gleði í búningsklefa Bournemouth hefur vakið mikla athygli á veraldarvefnum.

„Við erum búnir að klifra upp deildirnar og upp í úrvalsdeildina. Þetta er hreint ótrúlegt. Ég held að enginn, ekki einu sinni óforbetranlegir bjartsýnismenn, hafi trúað því að þetta væri mögulegt. Staðreyndin er sú að við munum takast á við stórstjörnur fótboltans næsta vetur og við munum standa okkur," sagði Mostyn við BBC.

„Í mínum augum höfum við gert það ómögulega. Þetta er hitt fullkomna ævintýri fyrir alla knattspyrnuáhugamenn, og vonandi gefur þetta öllum félögum þá von að þau geti risið úr öskustónni og komist í úrvalsdeildina. Ég er geysilega stoltur af öllum og eigandinn, framkvæmdastjórinn og allt starfsliðið eiga mikinn heiður skilinn. Þegar ég kom hingað fyrst höfðum við ekki efni á að kaupa frímerki," sagði Mostyn.

Hann kvaðst viss um að Bournemouth gæti haldið velli í úrvalsdeildinni. „Við förum upp með Watford og fengum fjögur stig gegn þeim í vetur. Við unnum QPR í fyrra og áttum að fá meira en við  gerðum gegn Burnley. Við spilum fótbolta sem mun vekja athygli í úrvalsdeildinni og ég tel að við eigum jafnmikla möguleika og önnur lið sem hafa komist upp á undanförnum árum," sagði Jeff Mostyn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert