Tíunda tapið hjá Liverpool

Möguleikar Liverpool á að komast í Meistaradeildina eru orðnir ansi litlir eftir 1:0 tap liðsins gegn Hull á KC vellinum í Hull í kvöld.

Sigurmarkið skoraði miðvörðurinn Michael Dawson með skalla á 35. mínútu leiksins og sigurinn var Hull afar mikilvægur í botnbaráttunni. Hull er núna í 15. sætinu með 34 stig og er fjórum stigum frá fallsæti.

Liverpool er í fimmta sætinu og er sjö stigum á eftir Manchester United þegar fjórar umferðir eru eftir og lærisveinar Brendan Rodgers eiga litla möguleika á að vinna sér Meistaradeildarsæti.

Bein lýsing:

90+5 Leiknum er lokið með 1:0 sigri Hull.

87. Nú er hver að verða síðastur fyrir Liverpool. Hull er taka sóknarmenn útaf og bæta mönnum í vörnina.

75. Þriðja og síðasta skiptingin hjá Liverpool. Dejan Lövren fer að velli og Markovic er kominn í hans stað.

65. Tvöföld skipting hjá Liverpool. Lambert og Lallana eru komnir inná fyrir Ibe og Balotelli.

62. Það gengur illa hjá Liverpool að skapa sér færi gegn baráttuglöðum leikmönnum Hull.

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

45+2 Það er kominn hálfleikur á KC vellinum þar sem Hull er 1:0 yfir.

40. Jordan Henderson í ágætu færi en skoti var laust og Harper átti í vandræðum með að verja skotið.

35. 1:0 MARK!! Hull er komið yfir og skoraði miðvörðurinn Michael Dawson markið með skalla af stuttu færi. Þetta er fyrsta markið sem Dawson skorar síðan 1. janúar 2013.

27. Hull gerði harða atlögu upp við markið en gestunum tókst að bægja hættunni frá á elleftu stundu.

20. Brasilíumaðurinn Coutinho átti góða tilraun en átti fast skot úr teignum eftir hornspyrnu en Steve Harper varði skotið og það með naumindum.

6. N'Doye framherji Hull átti góðan skalla að markinu og Mignolet þurfti að taka á honum stóra sínum til að verja.

1. Lee Probert hefur flautað leikinn á.

0. Liverpool er í fimmta sæti deildarinnar með 58 stig, er sjö stigum á eftir Manchester United en á leikinn til góða í kvöld. Hull er í 16. sæti með 31 stig og er í bullandi fallhættu.

0. Brendan Rodgers stjóri Liverpool kaus að hvíla fyrirliðann Steven Gerrard en leikurinn í kvöld er sá þriðji á einni viku hjá Liverpool.

0. Í dag eru slétt 25 ár liðin frá því Liverpool varð síðast Englandsmeistari og það í 18. sinn.

Lið Hull: Harper, Chester, Huddlestone, Brady, Livermore, McShane, Dawson, Aluko, Elmohamady, N'Doye, Quinn.

Lið Liverpool: Mignolet, Can, Skrtel, Lovren, Johnson, Allen, Henderson, Ibe, Sterling, Coutinho, Balotelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert