Rífast í liðsrútunni og hlusta ekki á stjórann

Jack Colback og félagar í Newcastle eru að vonum daprir …
Jack Colback og félagar í Newcastle eru að vonum daprir yfir lélegu gengi liðsins. AFP

John Carver, knattspyrnustjóri Newcastle, segir að leikmenn liðsins hlusti ekki á sig en ætlar ekki að gefast upp þó ekkert gangi hjá liði hans sem hefur tapað átta leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni og er komið í bullandi fallhættu.

Daily Telegraph skýrir frá því í dag að markvörður Newcastle, Tim Krul, og miðvörðurinn og fyrirliðinn Fabricio Coloccini hafi rifist heiftarlega í liðsrútunni á laugardaginn þegar liðið var á heimleið eftir skell gegn Leicester, 3:0.

Sagt er að Krul hafi verið saltvondur yfir frammistöðu Argentínumannsins og húðskammað hann fyrir lélegan varnarleik og skort á leiðtogahæfileikum.

Newcastle hefur ekki gefið neitt út um þetta en Carver sagði við ESPN að hann yrði að viðurkenna að til greina kæmi að hann næði illa til leikmannanna.

„Satt best að segja þá verð ég að viðurkenna að það má vel vera að þeir hlusti bara ekki á mig. Það gæti verið ein af mörgum ástæðum fyrir lélegu gengi okkar og ég verð að taka það til athugunar. Maður verður að skoða alla þætti og velta þeim upp,“ sagði Carver.

„En þetta getur líka verið margt annað - kannski erum við bara ekki nógu góðir, kannski vantar menn löngunina í að verjast vel í eigin vítateig eða til að skora mörk. Það getur svo margt komið til, en ég vísa ekki frá þeim möguleika að þeir hlusti ekki á mig,“ sagði Carver.

Newcastle er með 35 stig í 15. sæti deildarinnar, aðeins tveimur meira en grannarnir í Sunderland sem eru í átjánda sæti, fallsæti. Framundan eru heimaleikur við WBA, útileikur við QPR og heimaleikur við West Ham í síðustu þremur umferðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert