Biðja fjölskylduna um að mæta ekki á völlinn

Stuðningsmenn Newcastle hafa mótmælt slöku gengi liðsins með ýmsu móti …
Stuðningsmenn Newcastle hafa mótmælt slöku gengi liðsins með ýmsu móti og þessir krýndu það sem "meistara í bókhaldi." AFP

Margir leikmanna enska knattspyrnuliðsins Newcastle eru orðnir hræddir við að spila á heimavelli, fyrir framan heita stuðningsmenn félagsins, og hafa beðið eiginkonur, unnustur og aðra fjölskyldumeðlimi sína um að mæta ekki á leikina.

Þetta skrifar enski íþróttafréttamaðurinn Matt Law í Daily Telegraph í dag og hann segir í grein sinni að þessar fréttir staðfesti það sem margir hafi óttast - að leikmenn Newcastle séu ekki tilbúnir til að berjast fyrir lífi sínu í ensku úrvalsdeildinni. Liðið hefur tapað átta leikjum í röð, er nú aðeins tveimur stigum frá fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir, og á eftir að spila tvívegis á heimavelli á lokakafla deildarinnar.

Newcastle á eftir heimaleiki við WBA og West Ham en frá áramótum hefur liðið aðeins unnið einn leik á St. James' Park, vellinum sem vanalega er mikið vígi fyrir félagið þar sem um 50 þúsund manns troðfylla hann í flestöllum leikjum.

John Carver, yfirþjálfari Newcastle sem stýrir liðinu út tímabilið, átti í útistöðum við stuðningsmenn á dögunum þegar liðið tapaði 2:3 fyrir Swansea á heimavelli og áhorfendur hafa baulað á leikmennina og sent þeim tóninn.

Þá hafa borist fréttir af hávaðarifrildi Tim Krul markvarðar og Fabricio Coloccini fyrirliða í liðsrútunni á heimleið frá Leicester eftir skell þar á laugardaginn, 3:0.

Newcastle staðfesti í gær að Carver myndi stýra liðinu út tímabilið en talið er að félagið hafi um helgina reynt að fá Steve McClaren, knattspyrnustjóra Derby, til að taka að sér það verkefni í síðustu þremur umferðunum að forða liðinu frá falli. McClaren er sagður hafa hafnað því tilboði, þar sem ljóst sé að hann stýri Derby áfram, þrátt fyrir að liðið hafi misst af sæti í umspili um úrvalsdeildarsæti eftir gott gengi lengst af í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert