Dálítið klikkaður en mun bjarga liðinu

Nigel Pearson hvetur sína menn í leik.
Nigel Pearson hvetur sína menn í leik. AFP

Gary Lineker, fremsti markaskorari enska landsliðsins í knattspyrnu á sínum tíma og leikmaður Leicester um árabil, kveðst fullviss um að Nigel Pearson takist að halda sínu gamla  félagi í úrvalsdeildinni.

Leicester hefur lengst af setið á  botni deildarinnar í vetur en er komið úr fallsæti eftir fimm sigra í síðustu sex leikjunum og framundan eru þrjár umferðir þar sem hatrömm fallbaráttan verður til lykta leidd.

Pearson hefur vakið athygli fyrir framkomu sína uppá síðkastið, ekki síst þar sem hann kallaði íþróttafréttamann strút á blaðamannafundi á dögunum, en baðst síðan afsökunar á því. Atvikið hefur verið haft í flimtingum, líka innan Leicester þar sem boðið var upp á strútaborgara fyrir síðasta leik.

„Neil hefur gert frábæra hluti hjá Leicester. Hann veit hvað hann er að gera - jú, hann er vissulega dálítið klikkaður stundum, dálítið skrýtinn. Ég hef rifist við hann og hann getur orðið æstur og misst stjórn á skapinu. En ég held að við munum öll leiða slíkt hjá okkur ef hann heldur liðinu í deildinni," sagði Lineker við BBC.

„Hann hefur verið gagnrýndur fyrir að vera dálítið hrokafullur og frekur, en hann hefur haldið leikmannahópnum vel saman, haldið þeim einbeittum og með trú á sjálfa sig. Hann veit greinilega nákvæmlega hvað hann er að gera í vinnunni, og það er allt sem máli skiptir. Hann getur verið erfiður. En José Mourinho er líka stundum erfiður og hann hefur staðið sig ágætlega," sagði Gary Lineker.

„Það er nauðsynlegt fyrir þá að halda einbeitingu en ef ég væri hlutlaus aðili að skoða málið myndi ég vera 99 prósent viss um að Leicester muni halda sér í deildinni. Miðað við frammistöðuna undanfarið og leikina sem liðin eiga eftir, þá yrði ég frekar undrandi ef þeir myndu falla," sagði Lineker.

Leicester á eftir leiki við Southampton, Sunderland og QPR í síðustu þremur umferðunum en tvö síðarnefndu liðin eru einmitt í fallsætum deildarinnar, ásamt Burnley.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert