Framfarir sem hafa komið Eiði Smára á óvart

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. AFP

Eiður Smári Guðjohnsen segir í viðtali við Sky Sports að hann hafi ekki átt von á því að Harry Kane framherji Tottenham myndi taka jafn miklum framförum og raun ber vitni á þessu tímabili.

Eiður Smári æfði með Kane hjá Tottenham þegar hann var í láni hjá félaginu frá Monaco í stuttan tíma árið 2010.

„Hann var 16 eða 17 ára gamall þegar ég var hjá Tottenham. Hann æfði nokkrum sinnum með aðalliðinu en ég verð að segja að ég vissi ekki hvernig hann myndi þróast á þessum tímapunkti á ferlinum. Ég sá ekki náttúrulega hæfileika hans. Nokkrum árum síðar þá sérðu leikmann sem leggur hart að sér, er frábær í að klára færi sín og hefur löngum til að skora mörk,“ sagði Eiður.

Kane, sem er 21 árs gamall, hefur slegið í gegn með Tottenham á leiktíðinni og á dögunum var hann valinn besti ungi leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur skorað 20 mörk og skapað 27 marktækifæri fyrir félaga sína í 31 leik í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert