Lovren besti miðvörður úrvalsdeildarinnar

Dejan Lovren til vinstri, fagnar marki ásamt Philippe Coutinho.
Dejan Lovren til vinstri, fagnar marki ásamt Philippe Coutinho. AFP

Dejan Lovren, króatíski varnarmaðurinn hjá Liverpool, er besti miðvörður ensku úrvalsdeildarinnar, samkvæmt skýrslu sem knattspyrnurannsóknarstofnunin CIES hefur gefið út um bestu leikmenn í öllum stöðum í fimm stærstu deildum Evrópu.

Niðurstaðan kemur kannski einhverjum á óvart en Lovren er metinn sem tólfti besti miðvörður í Evrópu og þá á undan öðrum sem spila á Englandi, svo Vincent Kompany, John Terry og Per Mertesacker, svo einhverjir séu nefndir.

Lionel Messi hjá Barcelona er besti framherjinn samkvæmt skýrslunni, James Rodriguez hjá Real Madrid besti sóknarmiðjumaðurinn, Cesc Fabregas hjá Chelsea besti varnarmiðjumaðurinn, Thiago Silva hjá París SG besti miðvörðurinn og Dani Alves hjá Barcelona besti bakvörðurinn. 

Ef litið er betur á ensku úrvalsdeildina er Sergio Agüero hjá Manchester City talinn besti framherjinn en hann er í 5. sæti listans, Diego Costa hjá Chelsea í 7. sæti og Alexis Sánchez hjá Arsenal í 12. sæti.

Af sóknarmiðjumönnum er Eden Hazard hjá Chelsea í 2. sæti, David Silva hjá Manchester City í 4. sæti, Jesús Navas hjá Manchester City í 7. sæti og Santi Cazorla hjá Arsenal í 10. sæti.

Af varnarmiðjumönnum er Fernandinho hjá Manchester City í 7. sæti og Nemanja Matic hjá Chelsea í 12. sæti.

Af bakvörðum er Gael Clichy hjá Manchester City í 4. sæti, Antonio Valencia hjá Manchester United í 5. sæti og Leighton Baines hjá Everton í 11. sæti.

Svo er Dejan Lovren eini miðvörðurinn í deildinni sem kemst á tólf manna listann í sinni stöðu.

Skýrsluna í heild, sem tekur til fjölmargra þátta fótboltans, má skoða hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert