Simpson bíður ákæru – keypti of dýra skó

Danny Simpson í leik með Newcastle.
Danny Simpson í leik með Newcastle. AFP

Danny Simpson, bakvörður Leicester í ensku úrvalsdeildinni, hefur verið fundinn sekur um að hafa ráðist á barnsmóður sína þann 29. desember síðastliðinn.

Samkvæmt vitnum var komið að Simpson með hendur á hálsi barnsmóður sinnar eftir að heyrðist í parinu rífast heiftarlega. Simpson, sem hefur áður leikið með Manchester United, Newcastle og QPR, bíður ákæru en dæmt verður í máli hans í næsta mánuði.

Sjálfur neitar Simpson sök. Hann ber fyrir sig að parið hafi farið að rífast yfir gömlum textaskilaboðum áður en umræðan fór að snúast um dýra skó sem Simpson gaf henni í jólagjöf. „Mér fannst hún ekki verðskulda skóna,“ sagði Simpson sér til varnar. „Hún var á sófanum og ég var að reyna að klæða hana úr skónum.“

Saksóknari tók þessum rökstuðningi Simpsons fálega og krefst þess að Simpson verði dæmdur fyrir atvikið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert