Lukkudagur skoska stjórans

Alex Neil í skýjunum eftir leik dagsins.
Alex Neil í skýjunum eftir leik dagsins. AFP

Alex Neil, knattspyrnustjóri Norwich City á Englandi, mun seint gleyma þessum degi, en hann kom liðinu upp í ensku úrvalsdeildina með því að leggja Middlesbrough að velli, 2:0, á Wembley.

Á þessum degi fyrir ári síðan var Neil að þjálfa Hamilton í skosku 1. deildinni. Liðið komst í umspil um sæti í skosku úrvalsdeildinni og sigraði þar Hibernian eftir vítaspyrnukeppni.

Hann tók við Norwich í byrjun þessa árs og stýrði liðinu í umspil um sæti í úrvalsdeildinni. Liðið vann Middlesbrough í dag í úrslitaleiknum á Wembley, 2:0, og því óhætt að segja að 25. maí sé lukkudagurinn hans Neil.

„Ég hafði mikla trú á því að við gætum komist í úrvalsdeildina, en það er eitt að trúa og annað að gera hlutina,“ sagði Neil við BBC.

„Bestu leikmennirnir spila vel á stóra sviðinu og það sást á fyrstu tuttugu mínútum leiksins - við vorum ótrúlegir,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert