Eiður Smári sér fram á bjarta tíma

Eiður Smári slær í gegn á 37. aldursári.
Eiður Smári slær í gegn á 37. aldursári. AFP

Eiður Smári Guðjohnsen segir að það séu bjartir tímar framundan hjá Bolton og segir hann mikinn metnað vera innan raða félagsins þar sem menn eru þegar farnir að huga að næsta tímabili.

„Þegar ég kom var helsta markmiðið að forðast fallið. Eftir að hafa náð góðu skriði eftir það erum við ekki sáttir við hvar við enduðum, en ég held að það séu bjartir tímar framundan. Við verðum bara að vera vel undirbúnir þegar við komum til leiks á næsta tímabili,“ sagði Eiður.

Forráðamenn Bolton hafa sagt að þeir vilji halda Eiði, sem er orðinn 36 ára gamall. Hann skoraði sex mörk í 24 leikjum á tímabilinu eftir að hann kom í desember, og endurheimti hann einnig sæti sitt í landsliðinu. Eiður byrjaði atvinnumannaferil sinn á Englandi sem kunnugt er hjá Bolton fyrir sautján árum síðan.

„Það hefur verið indælt að vera kominn til baka og ég hef alltaf kunnað vel við mig hér,“ sagði Eiður Smári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert