Falcao spenntur fyrir Chelsea

Radamel Falcao er sagður spenntur fyrir Chelsea en ekki er …
Radamel Falcao er sagður spenntur fyrir Chelsea en ekki er víst að áhuginn sé gagnkvæmur. AFP

Kólumbíski framherjinn Radamel Falcao er tilbúinn að taka á sig mikla launaskerðingu í von um að komast í raðir Englandsmeistara Chelsea í sumar.

Þetta fullyrðir Daily Telegraph í dag. Manchester United ákvað að nýta ekki réttinn til að festa kaup á Falcao eftir að hann hafði verið hjá félaginu að láni frá Monaco í vetur. Hann hefur hins vegar mikinn áhuga á að halda kyrru fyrir í ensku úrvalsdeildinni, segir Telegraph.

Jorge Mendes, umboðsmaður Falcao, er einnig umboðsmaður Josés Mourinhos og það gæti liðkað fyrir félagaskiptunum. Mourinho mun hins vegar hafa hug á að næla í Antoine Griezmann frá Atlético Madrid eða Mauro Icardi frá Inter, til að efla sóknarher sinn vegna brotthvarfs Dididers Drogba.

Falcao þénaði heil 265.000 pund á viku á tíma sínum hjá United en Eden Hazard er launahæstur hjá Chelsea með 200.000 pund á viku. Samkvæmt Telegraph er Falcao reiðubúinn að lækka launin sín niður fyrir það sem Hazard þénar. Það verður hins vegar að koma í ljós hvort það freisti Mourinho að einhverju leyti, en Falcao skoraði aðeins fjögur mörk fyrir United í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert