Stefnir í fimmta stjórann á einu ári

Leikmenn Watford fagna, en þeir spila í úrvalsdeildinni að ári. …
Leikmenn Watford fagna, en þeir spila í úrvalsdeildinni að ári. Líklega undir stjórn enn eins þjálfarans. Ljósmynd/watfordfc.com

Lið Watford, sem tryggði sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili, munu að öllum líkindum skipta um knattspyrnustjóra þrátt fyrir það. Félagið hefur hætt viðræðum við Slavisa Jokanovic um framlengingu á samningi hans.

Þess í stað hefur Watford hafið samingaviðræður við Quique Sanchez Flores, fyrrum stjóra Atlético Madrid og Getafe, um að taka við liðinu. Hann yrði þá fimmti knattspyrnustjóri þess á einu ári.

Jokanovic er sagður hafa beðið um launahækkun eftir að hafa tryggt félaginu sæti í úrvalsdeild, en forráðamenn Watford töldu hann fara fram á of mikið. Hann tók við liðinu í október og vann 21 af 36 leikjum, en liðið endaði í öðru sæti ensku B-deildarinnar.

Áður en Jokanovic  tók við höfðu þrír menn stýrt liðinu á tímabilinu. Beppe Sannino hætti í lok ágúst og í hans stað var Oscar Garcia ráðinn. Hann hætti vegna heilsufars í lok september og Billy McKinlay tók við. Hann entist einungis átta daga í starfi áður en Jokanovic tók við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert