Arsenal orðið sigursælasta lið bikarsins

Arsenal skráði nafn sitt í sögubækur enskrar knattspyrnu í dag þegar liðið lagði Aston Villa í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar, 4:0. Þetta var tólfti sigur Arsenal í keppninni og hefur ekkert lið unnið hana oftar. Arsenal setti jafnframt met með því að spila í nítjánda sinn til úrslita.

Það var snemma ljóst í hvað stefndi. Arsenal réði lögum og lofum á vellinum en braut ekki ísinn fyrr en sömmu fyrir hálfleik þegar Theo Walcott skoraði með föstu skoti úr teignum eftir að hafa fengið boltann skallaðan til sín. 1:0 í hálfleik.

Arsenal byrjaði síðari hálfleikinn af krafti líkt og þeir enduðu þann fyrri, og á 50. mínútu skoraði Alexis Sánchez annað mark þeirra. Hann lét þá vaða langt utan teigs og fast skot hans fór í þverslá Aston Villa og þaðan í markið. Glæsilegt mark.

Rúmum tíu mínútum síðar skoraði Per Mertesacker með skalla af markteig eftir hornspyrnu og kom Arsenal í 3:0, áður en Oliver Giroud innsiglaði sigurinn með fjórða markinu í uppbótartíma. Lokatölur 4:0 og Arsenal því bikarmeistari annað árið í röð og í tólfta sinn alls. Þetta var jafnframt sjötti sigurinn undir stjórn Arsene Wenger sem setti um leið met.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is.

90. Leik lokið. Aldrei spurning.

90.+3 MARK! Staðan er 4:0. Þetta var aldrei spurning en Oliver Giroud innsiglar sigurinn. Chamberlain sendi boltann fyrir markið þar sem Giroud stýrir boltanum í markið.

85. Nú er þetta einungis tímaspurnsmál fyrir Arsenal. Villa mun ekki einu sinni minnka muninn.

62. MARK! Staðan er 3:0. Þetta er búið, það er bara þannig. Yfirburðir Arsenal eru gríðarlegir og nú skorar Per Mertesacker með skalla eftir hornspyrnu. Hann var einfaldlega aleinn í teignum.

56. Mark dæmt af Arsenal! Þetta er einstefna. Theo Walcott á skot sem Shay Given ver, en frákastið berst til hans líka og hann skorar. Það var hins vegar búið að flagga rangstöðu.

50. MARK! Staðan er 2:0. Arsenal byrjar síðari hálfleikinn eins og þeir enduðu þann fyrri - af krafti! Alexis Sánchez lætur bara vaða fyrir utan teig, skotið er þéttingsfast og smellur í þverslá og fer þaðan í netið. Magnað mark!

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

45. Hálfleikur. Það þarf eitthvað mikið að breytast hjá Aston Villa ætli þeir sér að snúa blaðinu við eftir hlé. En nú - kaffipása!

44. Markið hefur bara gefið Arsenal-mönnum byr undir sína vængi og þeir pressa stíft. Aston Villa á í vök að verjast.

39. MARK! Staðan er 1:0. Sóknarþungi Arsenal ber ávöxt! Eftir sendingu inn í teig var boltinn skallaður út til Theo Walcott sem þrumaði boltanum í nærhornið.

25. VÁ! Eftir fyrirgjöf er Theo Walcott aleinn á markteig og tekur skotið í fyrsta, en Kieran Richardson er aftur réttur maður á réttum stað og henti sér fyrir boltann á marklínunni!

20. Boltinn datt fyrir Aaron Ramsey á teignum en hann þrumaði boltanum yfir markið. Arsenal er með yfirhöndina.

15. Gamli maðurinn í marki Villa, Shay Given, hefur þurft að vera vel vakandi og bjargaði nú meistaralega eftir skot frá Koscielny.

7. Arsenal í færi. Santi Cazorla keyrði inn á teiginn en Kieran Richardson bjargaði á síðustu stundu.

1. Leikurinn er hafinn. Þá er bikarúrslitaleikurinn kominn í gang á Wembley.

0. Byrjunarliðin í þessum bikarúrslitaleik eru klár og þau má sjá hér að neðan. Wojciech Szczesny er í markinu hjá Arsenal og Theo Walcott er í fremstu víglínu. Danny Welbeck er frá vegna meiðsla.

Hjá Aston Villa byrjar gamli refurinn Shay Given í markinu og þá er Christian Benteke að sjálfsögðu í fremstu víglínu.

Arsenal: Szczesny, Bellerin, Mertesacker, Koscielny, Monreal, Coquelin, Cazorla, Ramsey, Ozil, Alexis, Walcott.

Aston Villa: Given; Hutton, Vlaar, Okore, Richardson; Westwood, Delph, Cleverley; Grealish, N'Zogbia, Benteke.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert