Rio Ferdinand leggur skóna á hilluna

Rio Ferdinand var lengi fyrirliði Manchester United.
Rio Ferdinand var lengi fyrirliði Manchester United. AFP

Knattspyrnumaðurinn Rio Ferdinand hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, 36 ára að aldri, eftir að hafa verið látinn fara frá QPR sem féll úr ensku úrvalsdeildinni í vor.

Ferdinand byrjaði feril sinn hjá West Ham en var keyptur til Leeds á metfé árið 2000. Þar var hann í tvö ár áður en Manchester United pungaði út 30 milljónum punda fyrir hann árið 2002. Frægt er þegar Ferdinand missti af lyfjaprófi árið 2003 og var þá settur í átta mánaða keppnisbann frá fótboltanum.

Hjá United vann hann sex Englandsmeistaratitla þangað til hann fór frá félaginu síðasta sumar og samdi við QPR til eins árs. Ferdinand spilaði sinn fyrsta landsleik árið 1997 og var þá yngsti varnarmaðurinn sem spilað hefur fyrir England, en hann lék alls 81 landsleik fyrir Englands hönd, þann síðasta árið 2011.

Ferdinand missti Rebeccu Ellison, konu sína, úr krabbameini nú í vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert