Láttu Jonás fá símann, hann er líka rekinn

Ryan Taylor (t.h.) þurfti að láta félaga sinn Jonás Gutierrez …
Ryan Taylor (t.h.) þurfti að láta félaga sinn Jonás Gutierrez fá símann þar sem honum var tilkynnt að hann yrði ekki áfram hjá Newcastle. AFP

John Carver, starfandi knattspyrnustjóri Newcastle, tilkynnti tveimur leikmanna liðsins það í sama símtalinu að þeirra krafta væri ekki óskað lengur hjá félaginu.

Leikmennirnir sem um ræðir eru varnarmaðurinn Ryan Taylor og kantmaðurinn Jonás Gutierrez. Taylor er þrítugur og var í sex ár hjá Newcastle en meiddist í tvígang alvarlega í hné. Jonás er 31 árs og kom til Newcastle 2008. Hann greindist með krabbamein í eistum en sneri aftur til leiks á nýafstöðu keppnistímabili.

„John Carver hringdi í mig og sagði að félagið ætlaði ekki að bjóða mér nýjan samning,“ sagði Taylor við Sky Sports.

„Ég spjallaði aðeins við hann og svo bað hann mig um að láta Jonas fá símann, sem var gjörsamlega ótrúlegt,“ sagði Taylor, en bætti við að Carver hefði greinilega ekki tekið ákvörðunina um að tvíeykið skyldi fara.

„Hann var látinn gera þetta, og fannst það greinilega erfitt. Ég get ekki kennt John um þetta því hann er bara að framfylgja skipunum,“ sagði Taylor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert