Aron samdi til 2018

Aron Einar Gunnarsson í landsleik.
Aron Einar Gunnarsson í landsleik. mbl.is/Ómar

Velska knattspyrnufélagið Cardiff City tilkynnti rétt í þessu að Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði Íslands, hefði skrifað undir nýjan samning við félagið til næstu þriggja ára, eða til ársins 2018.

Aron var að ljúka sínu fjórða keppnistímabili með Cardiff en hann kom til félagsins frá Coventry árið 2011. Hann hefur leikið með liðinu í þrjú ár í ensku B-deildinni og eitt tímabil, 2013-14, í ensku úrvalsdeildinni. Aron á að baki 168 leiki með félaginu í öllum mótum og hefur skorað 18 mörk og er í dag þriðji leikjahæstur af núverandi leikmönnum Cardiff. Aðeins Peter Whittingham og David Marshall eiga fleiri leiki að baki af þeim sem skipa liðið í dag.

Cardiff féll úr úrvalsdeildinni eftir ársdvöl þar vorið 2014 og hafnaði í vetur í 11. sæti af 24 liðum í B-deildinni. Aron lék 45 af 46 leikjum liðsins í deildinni og skoraði 4 mörk. Hann hefur spilað 156 deildaleiki fyrir Cardiff og á nú að baki samtals 278 deildaleiki á Englandi með Cardiff og Coventry. 

Aron er 26 ára gamall Akureyringur og lék fyrst með meistaraflokki Þórs árið 2005, þá 16 ára gamall. Ári síðar fór hann til AZ Alkmaar í Hollandi, var þar í tvö ár, og lék svo með Coventry í ensku B-deildinni í þrjú ár. Eftir það hefur hann spilað með Cardiff.

Aron hefur verið fastamaður í landsliði Íslands undanfarin ár og tók við fyrirliðastöðunni fyrir nokkrum árum. Hann lék sinn 50. A-landsleik þegar Ísland sigraði Kasakstan 3:0 í undankeppni EM í Astana í lok mars.

„Ég er afar ánægður með að hafa samið um að leika áfram með Cardiff. Ég hef upplifað margt stórkostlegt á þeim fjórum tímabilum sem ég hef verið hérna og hlakka til að spila með liðinu í mörg ár til viðbótar. Við ætlum okkur stærri hluti á næsta tímabili," sagði Aron við vef Cardiff í dag.

„Ég vil þakka stuðningsmönnum City fyrir hve vel þeir hafa stutt við bakið á mér og ég hlakka til að hefja undirbúningstímabilið með hinum strákunum. Við ætlum okkur allir að fara af stað af miklum krafti og ég er afar ánægður með að mín samningsmál skuli vera komin á hreint, þannig að ég geti einbeitt mér algjörlega að því verkefni sem við eigum fyrir höndum," sagði Aron ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert